Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hækkaði skyndilega undir lok dags og hafði við lok markaða hækkað um 0,4% en þá stóð vísitalan í 4.244 stigum.

Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun í morgun og hafði lækkað um rúm 0,7% um kl. 14 í dag. Kl. 14:45 varð hins vegar algjör viðsnúningur og Úrvalsvísitalan hækkað nokkuð ört.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Helstu ástæður hraðrar hækkunar Úrvalsvísitölunnar undir lok dags eru Kaupþing [ KAUP ] og Landsbankinn [ LAIS ] sem hækkuðu um svipað leyti eftir að hafa lækkað fram eftir degi.

Þá er þetta annar dagurinn í röð sem Century Aluminum [ CENX ] hækkar mest félaga í Kauphöllinni.

Færeysku félögin koma ekki vel út úr deginum og leiddu lengi vel lækkanir dagsins. Þá lækkaði Atlantic Patroleum [ FO-ATLA ] mest félaga eins og sést á töflunni hér til hliðar.

Velta með hlutabréf var tæpir 2,1 milljarðar króna. Mesta veltan var með bréf í Glitni [ GLB ] eða um 950 milljónir. Þar munar um mestu viðskipti fyrir um 530 milljónir sem fóru fram rétt fyrir klukkan 15 í dag.

Þá var velta með bréf í Kaupþing fyrir tæpar 690 milljónir og í Landsbankanum fyrir rúmar 230 milljónir en nokkuð minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur styrkst um 0,1% frá opnum í morgun en gjaldeyrismarkaðir eru enn opnir.