Gengi hlutabréfa Marel hefur lækkað um 1,06% frá því viðskipti hófust í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa Icelandair Group hefur farið niður um 0,57% og Haga um 0,55%.

Þessi gengisþróun hefur skilað því að Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,48% og fór hún undir 1.000 stigin. Hún stendur nú í 998,96 stigum.

Vísitalan tók gildi á Nýársdag árið 2009 og stóð á fyrsta degi í 1.000 stigum. Hún fór undir það svo til samdægurs og náði ekki að brjóta 1.000 stiga múrinn á ný fyrr en seint í apríl ári síðar.

Vísitalan hefur endurtekið leikinn endrum og eins síðan þá, síðast í byrjun mars og stóð það ferli yfir fram undir síðustu mánaðamót þegar vísitalan fór til skamms tíma undir 1.000 stigin á ný. Hún er þessu samkvæmt komin þangað aftur.

Úrvalsvísitalan stóð í 909,66 stigum um síðustu áramót og hefur hækkað um 9,8% síðan þá.