*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 20. janúar 2021 16:31

Úrvalsvísitalan yfir 2.700 stig

Icelandair hækkaði um meira en 5% í næst mestu viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði. Eimskip hækkaði næst mest.

Ritstjórn

Tiltölulega lítil velta var á hlutabréfamarkaði í dag, eða fyrir 2,5 milljarða króna, en Úrvalsvísitalan hækkaði í þeim um 0,65% og fór lokagengi hennar yfir 2.700 stiga múrinn í fyrsta sinn, eða upp í 2.715,09 stig. Mestu viðskiptin með bréf í einu félagi voru líkt og svo oft áður með bréf Marel, eða fyrir 592,2 milljónir króna, en þau hækkuðu í þeim um 1,06%, upp í 855 krónur.

Næst mestu viðskiptin, eða fyrir 394,9 milljónir króna, voru með bréf Icelandair, en þau hækkuðu jafnframt mest í viðskiptum dagsins eða um 5,03%, upp í 1,67 krónur. Næst mest hækkun var á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 1,72%, upp í 265,5 krónur, en viðskiptin voru jafnframt þau þriðju mestu með eitt félag, eða fyrir um 347,6 milljónir króna.

Þau bréf sem lækkuðu mest lækkuðu öll um minna en 1%, þar af Iceland Seafood mest, eða um 0,82%, niður í 13,35 krónur, í einungis 18 milljóna króna viðskiptum. Bréf Kviku banka lækkuðu næst mest, eða um 0,57%, niður 17,35 krónur, í 232 milljóna króna viðskiptum, en lækkun bréfa Brim nam 0,54%, niður í 55,30 krónur.

Af helstu viðskiptamyntum íslensku krónunnar veiktust evran gagnvart krónunni, um 0,13% í 156,28 krónu kaupgengi, Bandaríkjadalur, um 0,05% í 129,02 krónur, svissneski frankinn, um 0,10% niður í 145,10 krónur, danska krónan um 0,12% í 21,008 krónur og loks sænska krónan um 0,03% í 15,454 krónur.

Þær helstu sem styrktust gagnvart krónunni voru breska pundið, um 0,15% í 176,11 krónur, japanska jenið, um 0,26% í 1,2459 krónur, og norska krónan, um 0,49% í 15,194 krónur.

Stikkorð: Marel Úrvalsvísitalan Icelandair Nasdaq