Bandaríska flugfélagið US Airways heldur því fram að stjórn Delta hafi engra annarra kosta völ en að íhuga yfirtökuboð fyrirtækisins, þrátt fyrir að Delta hafi heitið því að flugfélagið muni komast frá gjaldþroti sem sjálfstætt fyrirtæki, segir í frétt Financial Times.

Tilboð US Airways hljóðar upp á átta milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar um 560 milljörðum króna og við samrunann yrði til stærsta flugfélag Bandaríkjanna miðað við tekjur.

Forstjóri US Airways, Doug Parker, hefur áður reynt yfirtöku á flugfélagi á barmi gjaldþrots í þeirri viðleitni að setja US Airways í flokk helstu flugfélaga heims. Delta hefur áður staðið gegn yfirtöku á þessu ári og hafnaði yfirtökuboði US Airways samstundis, sem varð til þess að US Airways ákvað að höfða til ótryggðra lánadrottna Delta. Parker segir að stjórnendur US Airways neyðist til að setjast að samningaborðinu þar sem að yfirtökuboðið bjóði lánadrottnum Delta betri kjör en flugfélagið geti boðið.

Parker segist hafa reynt að ná í forstjóra Delta, Gerald Grinstein, en hann hafi ekki enn svarað honum í gær. Delta hefur fengið greiðslustöðvun fram til 15. febrúar, og hefur Grinstein sagt að allt verði lagt í sölurnar við að koma fyrirtækinu í rétt form fyrir þann tíma. Parker heldur því fram að þar sem mikil fjölgun hafi verið á lággjaldaflugfélögum, muni samkeppnisyfirvöld ekki hafa neitt við samrunann að athuga.