Þórður Magnússon, stofnandi og stjórnarformaður Eyris Invest, hefur komið að rekstri fjölmargra sprotafyrirtækja á síðustu árum. Þórður er í viðtali við Viðskiptablaðið í nýjasta tölublaði þess.

Hvert er ykkar hlutverk í aðkomu fyrirtækjanna?

„Við komum að fyrirtækjum fyrst og fremst vegna þess að við trúum á þær hugmyndir sem verið er að vinna að. Hugmyndir okkar og stjórnenda um uppbyggingu þurfa að fara saman. Ef við lítum svo á að okkar aðkoma sé virðisaukandi fyrir félagið þá höfum við hlutverki að gegna,“ segir Þórður.

Þórður hefur ákveðnar hugmyndir um uppbyggingu ungra fyrirtækja og hefur haldið fyrirlestra þess efnis. „Það er auðvitað erfitt að fjármagna frumrannsóknir og þróunarstarf. Þess vegna tel ég að fyrirtæki þurfi að byrja snemma í ferlinu að selja lausnir sínar. Þannig þróast varan með viðskiptavinunum á sama tíma og fyrirtækið aflar sér tekna. Lausnirnar eru ef til vill ekki fullþróaðar en þá er hægt að laga þær að þörfum viðskiptavinanna.

Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin til að endurskilgreina vöru sína aftur og aftur. Varan verður ekki til í byrjun nema hún sé þróuð með einstökum notendum. En til þess að varan hafi notagildi fyrir fleiri þá verður hún að fara í gegnum þetta ferli. Þá er hægt að staðla vöruna þannig að hún hafi notagildi fyrir fleiri aðila. Eins er mikilvægt að komast í samband við endursöluaðila, fyrir lítið fyrirtæki hentar ekki að selja beint til margra notenda til lengri tíma. Endursöluaðili er mikilvægur og að varan sé hluti af því vöruframboði sem boðið er upp á.“

Er mikið leitað til ykkar með viðskiptahugmyndir?

„Já, það er mikið um það. Ég hef hvatt fyrirtæki til að viðra hugmyndir sínar við sem flesta og ræða þær, til að átta sig sem best á stöðunni. Það eru þúsund aðferðir til að klúðra góðri hugmynd. Það er mjög algengt að þegar komið er til okkar séu menn að leita eftir fjármögnun. Þá telja menn sig komna með hugmyndina og að allt sé klárt, nema að meginhættan sé að einhver steli hugmyndinni. En það að ræða hugmyndina gerir ekkert annað en að bæta hana.

Peningar eru auðvitað nauðsynlegir líka, en þetta er fyrst og fremst leiðsögn og leiðbeining. Fyrirtæki geta komist mjög langt án þess að setja of mikla fjármuni undir. Þolinmæði og langtímahugsun er nauðsynleg. Sprotafyrirtæki þurfa að ganga í gegnum ákveðið þróunar- og þroskaferli og eftir því sem fyrirtæki kemst lengra í slíkum þroska getur verið nauðsynlegt að styðja við vöxtinn með auknu fjármagni. Þetta höfum við til dæmis séð hjá Marel og Össuri og fleiri fyrirtækjum sem við höfum komið að.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu