Í dag, fimmtudaginn 9. desember standa UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, öðru sinni fyrir svokölluðum Degi samkeppnishæfni (e. Competitiveness Day) í Brussel. Þar munu hátt í þúsund forsvarsmenn fyrirtækja í Evrópu ásamt ýmsum fulltrúm stjórnvalda í Evrópulöndum koma saman og ræða samkeppnishæfni og stöðu hagvaxtar og sjálfbærrar þróunar í Evrópu. Meðal ræðumanna í dagskránni eru Jürgen Strube, forseti UNICE, José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Laurens Jan Brinkhorst, efnahagsmálaráðherra Hollands sem nú fer með forsæti í ráðherraráði ESB, auk annarra fyrirtækja stjórnenda, framkvæmdastjórnarmanna ESB, forseta Evrópuþingsins, forseta bankastjórnar Seðlabanka Evrópu o.fl.

Í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins kemur fram að meginskilaboð UNICE til stjórnvalda eru þau að nauðsynlegt sé að skapa athafnamönnum í Evrópu bættur aðstæður til umsvifa, auka sveigjanleika á vinnumarkaði, draga úr reglubyrði og auðvelda þannig fólki að stofna fyrirtæki og skapa störf. Mikilvægt er að efla nýsköpun og ryðja burt hindrunum á innri markaði. Markvissari og skilvirkari stefnu er þörf í umhverfismálum og hvatt er til þess að hlúð sé að alþjóðaviðskiptum og ?fjárfestingum.

Tímafrekt að stofna fyrirtæki innan ESB

UNICE benda meðal annars á að samanborið við Bandaríkin eru færri fyrirtæki stofnuð í Evrópu og þau vaxa hægar en vestanhafs. Jafnframt tekur að meðaltali lengri tíma að stofna fyrirtæki í löndum Evrópusambandsins en í öðrum löndum OECD. Þessu þarf að breyta með samstilltu átaki og skilningi allra hagsmunaaðila.

Forsenda velferðar

UNICE leggja áherslu á að næg atvinna er grundvallarforsenda velferðar. Sköpun atvinnutækifæra verður að vera lögð til grundvallar í löndum ESB ef markmið sambandsins um framfarir eiga að nást.