Breskir athafnamenn flýja nú fjármálakreppuna í Dubai og skilja eftir sig langan skuldahalda. Í samtali við Telegraph segir Simon Ford, breskur stofnandi fyrirtækisins Blue Banana í Sameinuðu arabíska furstadæminu, að menn flýi nú þúsundum saman vegna ótta við að lenda í skuldafangelsi.

Fjármálakreppan í Dubai sé sú versta síðan ríkið var stofnað fyrir 40 árum.

Gjaldþrotalög í landinu fela að sögn blaðsins í sér mögulega fangelsisvist ef menn komast í greiðsluþrot og standa ekki við samninga. Er því haldið fram að þar dugi að menn gefi út gúmmítékka.

Segir Telegraph að einn banki hafi spáð því að íbúum í Dubai muni fækka um fimmtung (20%), en þar hafa búið um 1,4 milljónir manna. Um 85% íbúanna eru af erlendum uppruna.

Búist er við að önnur flóttabylgja skelli á nú um mánaðamótin þegar foreldrar halda af stað úr landi með börn sín sem eru að ljúka skóla.

Flugvallaryfirvöld tilkynntu fyrr á þessu ári að um 3.000 mann hafi skilið eftir yfirgefna bíla sína á flugvellinum sem annað hvort voru á leigusamningum eða í þeirra eigu. Einn þessara manna lýsti því í samtali við Telegraph að hann hafi þó sent þeim lyklana til baka í pósti.