Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu upplýsingasamfélagsins í forsætisráðuneytinu, kynntu Upplýsingadaginn á blaðamannafundi í gær en hann verður haldinn í fyrsta skipti á þriðjudaginn, á Nordica hóteli.

UT-dagurinn er haldinn til þess að vekja athygli á stöðu upplýsingatækni, upplýsingatækniiðnaðar og fjarskipta. Að deginum standa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, samgönguráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélagið.

Meðal ræðumanna á UT-deginum verða Frikrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra.

Á fundinum kom fram að Íslendingar eru fremstir í flokki Evrópuþjóða í tölvueign og aðgengi að netinu, sem og í tölvu- og netnotkun. Einnig eru Íslendingar í þriðja sæti í háhraðatengingum við heimili.

Tíu prósent jarðarbúa hafa aðgang að netinu, segir Guðbjörg Sigurðardóttir en 86% Íslendinga nota það.

"Viðamikill þáttur í þessum góða árangri er sú áhersla sem lögð hefur verið á aukna nýsköpun," sagði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskitparáðherra. Jafnframt benti hún á að ríkisstjórnin lagði fyrir skömmu einn milljarð í Nýsköpunarsjóð og ráðgerir að bæta við 2,5 milljörðum á árunum 2007 til 2009 í samstarfi við lífyerissjóði og fagfjárfesta.

"Þrátt fyrir mikið aðgengi og mikla notkun, versla Íslendingar ekki mikið á netinu," segir Guðbjörg Sigurðardóttir og velti fyrir sér hvort lítið framboð á íslenskum netverslunum stæði í vegi fyrir rafrænum viðskiptum.

Þrátt fyrir góða útkomu Íslands er mikið verk að vinna, bæði hvað varðar innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu og eflingu verslunar á netinu, segir Guðbjörg.

Þegar hefur verið hafist handa að útbúa þjónustuveitu á netinu á vegum ríkisins. Verkefnið heitir Ísland.is. Þar verður hægt að nálgast á einum stað alla þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Annað verkefni stjórnvalda, sem tengist upplýsingatækninni, heitir Ísland altengt. Í það verða lagðir 2,5 milljarðar. Í því felast endurbætur á GSM farsímakerfinu á hringveginum, meginstofnvegum og fjölsóttum ferðamannastöðum, sendingar á stafrænu sjónvarpi um gervihnött til sjófarenda og uppbygging á háhraðatenginum á landsvæðum sem fjarskiptafyrirtækin telja að séu ekki hagkvæm.

"Ég er sannfærður um að fjárfesting í harðbrautum upplýsingamiðlunar um allt land er lykill að jafnari búsetuskilyrðum en ella" segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra um tilurð verkefnisins.