Farþegi sem ætlaði að ferðast með lággjaldaflugfélaginu Ryanair fékk nóg af biðinni í kyrrstæðri flugvél og fór út um neyðarútgang við væng flugvélarinnar að því er BBC greinir frá .

Flug hans frá Malaga á Spáni til London hafði tafist um klukkustund auk þess sem vélin var kyrrstæð í 30 mínútur eftir að farþegum var hleypt um borð.

Maðurinn fór út á vænginn og sat þar um stund áður en starfsfólk náði að sannfæra hann um að fara inn í flugvélina aftur. Maðurinn var í kjölfarið handtekinn en talsmenn flugfélagsins segja hegðan hans brjóta gegn öryggisreglum spænskra yfirvalda.