Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti í gær að auka stuðning við utangarðsfólk með því að fjölga um tólf íbúðum fyrir fólk í jaðarstöðu á grundvelli hugmyndafræðinnar Housing first að því er segir í fréttatilkynningu borgarinnar.

Einnig verður starfsmönnum í vettvangs- og ráðgjafarteymi sem veitir utangarðsfólki þjónustu fjölgað úr sjö í þrettán. Teymið mun starfa út frá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem er þekkingarstöð í málefnum utangarðsfólks.

Eiga að draga úr áreitni á nærsamfélag

Teymið var stofnað á árinu 2015 og sinnir tveimur mikilvægum hlutverkum. Annars vegar hefur það yfirsýn yfir málaflokkinn og vinnur að forvörnum með því að sinna þeim sem leita í neyðarskýli, hins vegar veitir það hópi fólks, sem er í búsetu undir formerkjum Housing First, stuðning og ráðgjöf í daglegri búsetu.

Það vinnur að því að draga úr heilsufarslegum og félagslegum afleiðingum þess að vera utangarðs, auka lífsgæði skjólstæðinganna og draga úr áreiti þeirra á nærsamfélag sitt og óþarfa kostnaði í heilbrigðis- og velferðarkerfum. Jafnframt vinnur það markvisst að forvarnarstarfi gegn heimilisleysi.

Ætlunin er að fjölga íbúðum um fjórar á ári eða samtals tólf fram til 2020. Stöðugildum í vettvangs- og ráðgjafarteymi verður á næsta ári fjölgað um þrjú, tvö til viðbótar á árinu 2019 og eitt á árinu 2020. Í lok tímabilsins er ætlunin að teymið geti veitt þjónustu frá kl. 8:00 til kl. 24:00 alla daga vikunnar. Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 67 milljónir, þar af eru áætlaðar 35 milljónir á næsta ári.

Einnig er gert er ráð fyrir að tillögur um breytingar á starfsemi í Gistiskýlinu verði lagðar fyrir velferðarráð á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 ásamt tillögum um fjölgun smáhýsa og annarra aðgerða í þágu utangarðsfólks.

Ólík nálgun fyrir konur og karla

Þess ber að geta að velferðarráð leggur áherslu á að skoðað verði áfram hvernig tryggja megi sambærilega þjónustu við konur jafnt sem karla þó að ólíkar aðstæður hópanna kunni að kalla á ólíkar nálgun í þjónustu.

Með utangarðsþjónustu er átt við þjónustu fyrir sundurleitan hóp fólks sem af ýmsum ástæðum getur ekki haldið heimili. Algeng einkenni í þessum hópi eru fíkn og neysla, geðrænn vandi, frávik í þroska og saga um áföll og félagslega erfiðleika.

Tillaga um þróun þjónustunnar byggir á Stefnu um málefni utangarðsfólks 2014-2018 og stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu 2013 – 2023 sem leggur áherslu á hugmyndafræðina sjálfstætt líf.