Á fyrstu 8 mánuðum ársins fóru Íslendingar í 351 þúsund utanlandsferðir sem er nýtt met fyrir tímabilið, en fyrra met var frá árinu 2007 þegar utanlandsferðir Íslendinga voru 322 þúsund.

Á sama tímabili í fyrra námu utanlandsferðirnar 293 þúsund og er því um 20% aukning milli ára. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Mikil aukning í júní síðastliðnum má að miklu leiti rekja til þátttöku knattspyrnulandsliðsins á lokamóti EM. Af þeim 58 þúsund auknu ferðum sem farið var í á tímabilinu var aukningin bara í júnímánuði 19 þúsund ferðir, sem er hlutfallsleg aukning um 40%.

Fækkun fylgdi kaupmáttarskerðingu

Á tímabilinu 2007 til 2009 fækkaði utanlandsferðum Íslendinga hins vegar verulega, fóru þær úr 470 þúsund niður í 254 þúsund, á sama tíma og gengisvísitalan fór úr 118 stigum í 223 stig.

Síðan 2009 hefur kaupmáttur Íslendinga vaxið á ný og til ársins 2016 hefur hann aukist um 78% og hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað um 104% á sama tíma. Mesta kaupmáttaraukningin var frá fyrra ári til þessa síðasta, eða um 16,8% en aukningin hefur ekki verið jafnmikil síðan árið 2005.

Útgjöldin 277 þúsund á mann

Aukning útgjalda Íslendinga erlendis nam 30% milli ára, fóru þau úr 53,5 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2015 í 70 milljarða króna á þessu ári. Námu útgjöldin því 277 þúsund krónum á mann á tímabilinu.

Á síðustu tveimur árum hafa flugfargjöld lækkað töluvert, meðal annars vegna lægra eldsneytisverðs. Verð á flugi til og frá landinu var 12,4% lægra á fyrstu 8 mánuðum ársins borið við sama tímabil í fyrra en í fyrra nam lækkunin 8,3%. Hafa flugfargjöld því lækkað um 20% á fyrstu átta mánuðum ársins ef borið er saman við sama tímabil árið 2014.

Milli áranna 2007 og 2009 hækkuðu hins vegar flugfargjöld um 56%, en samtals nam hækkunin 117% milli áranna 2007 og 2013.