Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur farið í embættiserindum til útlanda fyrir rúmar 38,5 milljónir króna á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um utanlandsferðir hans.

Katrín spurði ráðherrann í hversu margar utanlandsferðir hann hefði farið það sem af væri í kjörtímabilinu, og var óskað eftir upplýsingum um tilefni, lengd og kostnað hverrar ferðar ásamt fjölda í fylgdarliði.

Kostnaðarsamasta ferð Gunnars Braga var ferð á 69. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, en þá fór hann ásamt þriggja manna fylgdarliði til borgarinnar og dvaldist þar í níu daga. Ferðin kostaði rúmlega 3,3 milljónir króna.

Sé lengd allra ferðanna tekin saman sést að Gunnar Bragi hefur verið erlendis 199 daga af kjörtímabilinu.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um utanlandsferðir ráðherrans hér.