„Þegar fólk eyðir öllu sínu aukafé í einkaneyslu erlendis frekar en heima þá skilar það sér náttúrulega ekki almennilega inn í hagkerfið. Þannig að það má spyrja sig hvernig stendur á því að á meðan hagkerfið er rétt að byrja að rétta úr kútnum eru utanlandsferðir komnar aftur í hámark. Á sama tíma eru margir þættir hér innanlands sem eru bara ekki farnir af stað“, segir Kristrún Mjöll Frostadóttir, sérfræðingur greiningadeildar Arion banka. Hún segir forgangsröðun fólks skrýtna.

Áramótablað  Kristrún Mjöll Frosadóttir
Áramótablað Kristrún Mjöll Frosadóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Annað árið í röð vex innflutningur meira en útflutningur á milli ára. Þessi aukning stafar fyrst og fremst af utanlandsferðum Íslendinga. Sú neysla skilar sér ekki aftur til íslenskra fyrirtækja og leiðir því ekki til aukinnar fjárfestingar innanlands. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningadeildar Arion banka í dag.

Þar er jafnframt bent á að sú aukning sem orðið hefur í útflutningi frá hruni sé helst vegna útflutnings þjónustu, til dæmis ferðaþjónustu. Þessi þróun í vöru- og þjónustujöfnuði eftir hrun sé ákveðið áhyggjuefni í ljósi gjaldeyrisþurftar landsins enda stöndum við frammi fyrir þungum endurgreiðsluferli erlendra lána.

Um endurgreiðsluferli erlendra lána má lesa nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.