Íslendingar eiga enn langt í land að fara jafn oft til útlanda og fyrir fyrir kreppu. Samtals fóru 35.500 Íslendingar til útlanda í síðasta mánuði samanborið við 32.200 í fyrra. Þetta jafngildir 10% aukningu á milli ára. Það sem af er ári hafa 310.700 Íslendingar farið um Leifsstöð sem er rétt rúmlega 6% meira en í fyrra. Til samanburðar fóru 381.800 Íslendingar utan á fyrstu tíu mánuðum ársins 2007, sem er 23% fleiri en á þessu ári.

Greining Íslandsbanka fjallaði um málið í dag og bendir á að rekja megi til færri utanlandsferða landans nú en áður til þess að fjárhagslegt svigrúm heimilanna er enn minna þrátt fyrir að hafa aukist upp á síðkastið. Þá sé kaupmáttur þeirra sem fari utan mun minni nú en fyrir fimm árum þegar ein evra kostaði að jafnaði um 88 krónur og Bandaríkjadalur um 65 krónur. Ein evra kostar í dag 161 krónu og dollarinn 125 krónur. Það merkir að evran er 83% dýrari nú en þá og dollarinn 92% dýrari.