Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er þessa dagana í heimsókn í Kína ásamt viðskiptasendinefnd. Fundar hann þar með ráðamönnum og kynnir sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í Kína og hvernig megi auka og víkka út viðskipti og samstarf ríkjanna.

Fyrr í dag átti Gunnar Bragi fund í Peking með viðskiptaráðherra Kína, Gao Hucheng. Umfjöllunarefnið var fríverslunarsamningur Íslands og Kína sem tekur gildi þann 1.júní nk. Ráðherrarnir ræddu vaxandi viðskipti ríkjanna og þau tímamót sem fríverslunarsamningurinn markar. Efnahagslegt samstarf af ýmsum toga var rætt á fundinum, ekki síst þróun samstarfs í orkumálum, m.a. jarðvarma. Þá ræddu ráðherrarnir ferðamál, samvinnu á Drekasvæðinu og áhuga íslenskra fyrirtækja á sölu á ýmsum kjöt- og mjólkurvörum til Kína.

Þá fundaði utanríkisráðherra einnig með varautanríkisráðherra Kína, Wang Chao. Fögnuðu ráðherrarnir þeim tækifærum sem fælust í fríverslun milli ríkjanna, auknu samstarfi á ýmsum sviðum og því samráði sem hér væri hafið samkvæmt viljayfirlýsingu forsætisráðherra ríkjanna frá fyrra ári. Norðurslóðamál báru einnig á góma á fundinum, sem og samstarfsmöguleikar á sviði umhverfisverndar. Þá var rætt um Evrópumál, sem og mikilvægi jafnréttismála.