Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, heldur til Washington á morgun í þriggja daga heimsókn, þar sem hún mun eiga fund með Gondoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Einnig mun hún sitja fund þróunarnefndar Alþjóðabankans, en Ísland gegnir nú formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í bankanum.

Á fundi sínum með Gondoleezzu Rice á morgun mun Ingibjörg ræða framtíð öryggis- og varnarsamstarfs Bandaríkjanna og Íslands, en í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins var ákveðið að efla reglulegt pólitískt samráð.

Síðar um daginn fundar Ingibjörg Sólrún með Women´s Foreign Policy Group, sem er félagsskapur áhrifakvenna um utanríkismál. Á laugardag tekur Ingibjörg svo þátt í morgunverðarfundi ráðgjafanefndar Alþjóðabankans um málefni kvenna.

Á sunnudag talar svo utanríkisráðherra fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á vorfundi þróunarnefndar Alþjóðabankans og situr ennfremur sérstakan ráðherrafund Alþjóðabankans um loftslagsmál sama dag.