Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, átti í dag samtal við sendiherra Kína á Íslandi, Zhang Keyuan, þar sem hún lýsti þungum áhyggjum vegna ástandsins í Tíbet.

Nefndi hún sérstaklega fregnir af tugum dauðsfalla í tengslum við mótmæli síðustu daga og áframhaldandi spennu milli íbúa Tíbets og kínverskra stjórnvalda. Hvatti ráðherra til þess að kínversk stjórnvöld beittu ekki valdi og að þau legðu sig fram um að finna varanlega lausn á stöðu Tíbet og að mannréttindi yrðu virt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.