Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, birti í dag tillögudrög að ESB-umsókn en í fjölmiðlum fyrr í dag kom fram gagnrýni á þá leynd sem hvílt hefur yfir drögunum.

Meginefni tillögunnar hljóðar svo: „Alþingi samþykkir að ríkistjórnin leggi inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning."

Í greinargerð tillögunnar segir að tillagan um aðildarumsókn til ESB sé lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu þegar hann liggi fyrir.

Í greinargerðinni segir enn fremur að stjórnvöld áskilji sér sömuleiðis rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggi fyrir „enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið."

Nefndir eru grundvallarhagsmunir Íslands, svo sem forræði þjóðarinnar yfir auðlindunum.

Tillögudrögin voru birt á vef utanríkisráðuneytisins og má finna hér.