Davíð Oddsson utanríkisráðherra tekur í dag með táknrænum hætti í notkun nýja verksmiðju Lýsi hf. við Fiskislóð í Örfirisey, þá stærstu sinnar tegundar í heiminum. Ráðherra klippir á borða að viðstöddu fjölmenni til marks um að starfsemi sé formlega hafin í þessum nýju höfuðstöðvum fyrirtækisins, þar sem er undir einu þaki öll rannsóknar- og framleiðslustarfsemi, sem og aðalskrifstofur.

?Loksins er langþráður draumur okkar að rætast,? segir Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsi í tilkynningu vegna kaupanna. ?Aðstaðan við Grandaveg, þar sem fyrirtækið hefur verið til húsa frá stofnun árið 1938, var fyrir löngu orðin allt of lítil. Það eru því mikil umskipti fyrir okkur að flytja í þetta glæsilega 4.400 fermetra hús, sem búið er fullkomnasta tæknibúnaði sem völ er á.?

Framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2004. Íslenskir aðalverktakar og Héðinn verksmiðja önnuðust verkið og Landsbanki Íslands sá um fjármögnun.

Nýja verksmiðjan er sú stærsta í heiminum á sínu sviði og framleiðslugetan tvöföld á við gömlu verksmiðjuna, eða 6.000 tonn á ári. ?Við höfum þurft að vísa frá viðskiptum þar sem ekki hefur verið hægt að anna eftirspurn þó unnið hafi verið dag og nótt, nær alla daga ársins,? segir Katrín. ?Nú getum við sinnt þessum viðskiptavinum og fleirum, því þessi framleiðslugeta á að duga okkur næstu 2-3 árin, þó slíkt sé auðvitað aldrei hægt að fullyrða með vissu.?

Nýja verksmiðjan uppfyllir svokallað GMP lyfjaframleiðsluleyfi. ?Þannig færumst við nær og nær lyfjageiranum,? segir Katrín. ?Það er mikil eftirspurn eftir Omega-3 heilsuvörum og öðrum afurðum okkar, enda sýna fjölmargar rannsóknir jákvæða virkni þeirra á líkamann, s.s. heila, hjarta, liði, geð, húð, augu og sæðisfrumur. Einnig hafa þær reynst vel í baráttu við minnisleysi og athyglisbrest. Þessi gæðastaðall er því mjög mikilvægur fyrir okkur og skapar enn frekari tækifæri til markaðssetningar á vörum okkar.?

Langstærstur hluti framleiðslunnar hjá Lýsi hf., eða 90%, fer á markað erlendis. Vörur frá fyrirtækinu eru fluttar út til 30 landa. Helstu markaðir eru í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

65 starfsmenn vinna hjá Lýsi hf. Samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu AC Nielsen er Lýsi hf. stærsta heilsuvörufyrirtæki landsins og byggist niðurstaðan á sölutölum verslana. Með því að skoða fjölda skráðra strikamerkja í kassakerfum fæst yfirlit yfir seldar einingar og söluverðmæti. Er Lýsi hf. í fyrsta sæti í hópi heilsufyrirtækja í báðum þessum flokkum.