Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrituðu í vikunni samkomulag sem felur í sér afnot björgunarsveitarinnar af þremur byggingum ráðuneytisins á öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að byggingarnar verði notaðar fyrir búnað alþjóðasveitarinnar sem hefur verið með samstarfssamning við ráðuneytið um nokkurra ára skeið. Meðal þeirra verkefna eru rústabjörgun á erlendri grund á vegum Íslensku friðargæslunnar.

"Það er afar ánægjulegt að geta nýtt byggingar á öryggissvæðinu með þessum hætti og aukið stuðninginn við starf alþjóðasveitarinnar,"sagði Ingibjörg Sólrún við undirritunina.