Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að munurinn á ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar og ESB-tillögu Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins felist í því hvað þurfi að gera áður en teknar eru ákvarðanir um aðildarviðræður Íslands við  Evrópusambandið.

Þetta kom fram á Alþingi í morgun en þar fara fram umræður um tillögu ríkisstjórnarinnar. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mælti fyrir henni í morgun.

Þingflokkar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram aðra tillögu um undirbúning umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Þeirri tillögu var dreift á Alþingi í morgun.

Þingmenn Framsóknar gerðu athugasemdir við það í umræðunum að ráðherrar VG væru fjarverandi. Forseti þingsins lofaði að koma því áleiðis til ráðherranna svo þeir myndu mæta.

Biðlar til framsóknarmanna

Bjarni sagði, er hann kom upp í andsvörum við ræðu ráðherra, að það þyrfti að liggja fyrir áður en tekin yrði ákvörðun um aðildarviðræður, hvaða hagsmunir væru mikilvægastir og hvernig ætti að verja þá. Út á það gengi ESB-tillaga Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Össur reyndi í ræðum sínum sérstaklega að biðla til stuðnings framsóknarmanna við aðildarumsókn og sagði að ríkisstjórnin og framsóknarmenn ættu að geta náð samstöðu um málið.

Hann sagðist vera tilbúinn til að ganga ansi langt varðandi mótun samningsmarkmiða og fleira „til að ná þeirri samstöðu sem ég tel að þurfi að nást hér á þinginu - en líka milli þings og þjóðar," sagði hann.

Tillögu Framsóknar og sjálfstæðismanna má sjá hér.