Engin gögn eru til í utanríkisráðuneytinu sem benda til þess að mögulegt hefði verið að flýta því að Bretar tækju Icesave-ábyrgðirnar í breska lögsögu. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Siv hefur lagt fram nokkrar fyrirspurnir til ráðherra um Icesave en eftir bankahrunið héldu Landsbankamenn því fram að Bretar hefðu verið tilbúnir til að veita bankanum flýtimeðferð svo hægt yrði að færa Icesave undir breska lögsögu á fáeinum dögum. Hefði það náð fram að ganga hefði mátt koma í veg fyrir Icesave-deiluna.

Í skriflegu svari sem dreift hefur verið á Alþingi í dag spyr Siv: Eru til gögn í ráðuneytinu sem benda til þess að ef til vill hafi verið mögulegt að flýta því að Bretar tækju Icesave-ábyrgðirnar í breska lögsögu?

Svar ráðuneytisins er stutt: Nei.