Benedikt Jónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, undirrituðu í dag samstarfssamning í tengslum við þátttöku Íslands á heimssýningunni EXPO 2010,  sem haldin verður í Shanghæ í Kína á næsta ári.

Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins en ferðamál, orka og hugvit eru aðaláherslur Íslands á sýningunni og munu utanríkisráðuneytið, Ferðamálastofa og Icelandair nýta þátttökuna til sérstakrar kynningar á Íslandi sem áfangastað fyrir kínverska ferðamenn í júní á næsta ári.

Fram kemur að í samningnum felst meðal annars að Icelandair mun nýta sér aðstöðu í íslenska skálanum á sýningunni til kynningar á fyrirtækinu fyrir kínverskum fyrirtækjum. Icelandair kemur að mótttöku kínverskra fjölmiðla sem sækja Ísland heim í tengslum við samstarf Norðurlandanna á sýningunni.

Þá mun stuðningur Icelandair við verkefnið nýtast í átaki sem utanríkisráðuneytið stendur fyrir í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar til að stuðla að markaðssókn íslenskra listamanna, hönnuða og hugvitsmanna í Asíu.