Starfshópur á vegum utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skilaði í dag skýrslu um hvernig utanríkisþjónustan getur stutt betur við íslenskt atvinnulíf vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19. Frá þessu er greint á vef Samtaka atvinnulífsins.

Í skýrslunni eru settar fram tólf tillögur um hvernig megi breyta áherslum í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu misserum í þeim tilgangi. Vinna starfshópsins byggði á samtali við aðila atvinnulífsins og starfsfólk ráðuneytisins og annarra haghafa.

„Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda er forsenda þess að við náum þeirri efnahagslegu viðspyrnu sem við sem samfélag þurfum á að halda. Utanríkisráðuneytið hefur í þeim efnum sýnt einkar gott fordæmi," segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Í skýrslunni, sem ber heitið Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19, er tillögunum tólf skipt í fjóra flokka. Flokkarnir eru aðstoð við íslensk útflutningsfyrirtæki, tillögur um gerð og rekstur alþjóðasamninga á sviði milliríkjaviðskipta, almenn meðferð utanríkismála og starfshættir utanríkisþjónustunnar. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að beita megi utanríkisþjónustunni með afgerandi hætti til aukins stuðnings útflutningshagsmunum Íslendinga.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, afhenti skýrsluna fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands og Íslandsstofu fyrr í dag. Starfshópurinn var skipaður í byrjun maí, en hann skipa Auðunn Atlason sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Einar Gunnarsson, sem einnig er sendiherra.