Athafnamaðurinn Mike Watts frá Bath í Bretlandi hefur komið ansi óhefðbundinni viðskiptahugmynd í framkvæmd. Hann hefur útbúið sinn eigin 400 metra veg sem fólk getur nýtt sér og sparað sér þannig talsverðan tíma. Frá þessu er sagt á vef BBC.

Ástæðuna fyrir framkvæmdinni má rekja til þess að veginum Kelston Road var lokað í febrúar vegna skemmda og verður hann ekki lagfærður fyrr en í lok ársins. Mike Walt ákvað því að útbúa veg í gegnum landsvæði sitt og kostaði framkvæmdin um 150 þúsund sterlingspund, jafnvirði tæplega 30 milljóna íslenskra króna, sem hann fjármagnaði sjálfur. Hann vonast til að framkvæmdin borgi sig því allir sem nýta sér veginn verða að borga tvö pund í veggjald eða tæpar 400 krónur.

Vegfarendur sem ræddu við BBC sögðust ánægðir með framtakið, vegurinn spari mikinn tíma á degi hverjum og því sé vel þess virði að borga nokkrar krónur fyrir. Mike segir að til að framkvæmdin borgi sig verði 1000 bílar að fara um veginn á dag.