Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur ákveðið að auglýsa eftir ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands. Jafnt innlendum sem erlendum aðilum mun bjóðast að senda tilboð í ráðgjöfina. Samkvæmt verkefnislýsingu felst verkefni ráðgjafa m.a. í að greina og meta mögulega kosti sem til álita koma við söluna og gera tillögur um hvaða leiðir skuli valdar. Frestur til að skila tilboðum er til 28. október n.k.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2003 segir að fylgt verði
eftir heimild Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands og þess
gætt að sala fyrirtækisins fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína. Ennfremur
segir að tryggt verði að núverandi þjónusta við almenning á þessu sviði skerðist ekki. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.