Hjá Vegagerðinni eru nú 32 verkefni á lista um fyrirhuguð útboð. Langflest þessara verkefna lúta að snjómokstri og annarri vetrarþjónustu en engin stórverkefni. Alls snúast 19 af þessum 32 útboðsverkum um vetrarþjónustu 4 að efnisvinnslu 2 um yfirlagnir og 2 um sumarþjónustu varðandi heflun og slátt.

Eina stórverkefnið sem  eitthvað kveður að þar sem tilboð voru opnuð nýverið var verkefni við tvöföldun Suðurlandsvegar. Alls bárust 15 tilboð í verkefnið sem snýst um tvöföldun og breikkun Hringvegar frá Fossvöllum í Lögbergsbrekku, ofan við Lækjarbotna, að Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna. Arnarverk ehf. í Kópavogi átti lægsta boð, tæplega 607 milljónir króna sem er um 80,9% af áætluðum verktakakostnaði upp á 750 milljónir króna. Næstlægst var Vélaleiga AÞ ehf. með 82,5% og Háfell ehf. átti þriðja lægsta tilboðið upp á 82,5% af kostnaðaráætlun. Áætlaður verktakakostnaður er einungis hluti af kostnaði við verkið, við bætist til dæmis eftirlit og umsjón, malbik og víravegrið þannig að heildarkostnaður verður töluvert hærri.