Flugstoðir undirrituðu í fyrri viku þriggja ára samning við Mýflug hf. um rekstur á flugvél Flugstoða. TF FMS. Var rekstur flugvélarinnar boðinn út í sumar og bárust tvö tilboð í verkefnið.

Annað tilboðið kom var frá Mýflugi hf. og hitt frá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hjördís Guðmundsdóttir Upplýsinga- og kynningafulltrúi Flugstoða segir að áður hafi verið gerður samningur við Mýflug um tilraunaverkefni um rekstur á vélinni til eins árs. Til hafi staðið að bjóða verkefnið út í fyrrahaust, en við bankahrunið hafi þau mál frestast og samningurinn við Mýflug því látinn gilda áfram.

Samningurinn var upphaflega gerður 1. febrúar 2008 um að Mýflug tæki að sér rekstur flugvélar Flugstoða og framkvæmd verkefna sem henni fylgdu. Um var að ræða flugmælingar þar sem Mýflug hf. lagði til áhöfn en mælingar skyldu framkvæmdar af sérfræðingum Flugstoða. Var þetta fyrirkomulag harðlega gagnrýnt af Flugfélagi Vestmannaeyja. Kærði félagið málið til Kærunefndar útboðsmála 27. ágúst 2008 vegna meintrar vanrækslu á útboðsskyldu Flugstoða ohf. á flugmælingum á flugvöllum Landsins. Kærunni var hins vegar vísað frá.

Hjördís segir að tilboðið frá Mýflugi hf. í útboðinu nú hafi einfaldlega verið metið hagstæðara. Ekki sé þó gefið upp um hvaða upphæðir sé samið, frekar en í útboðum annarra hlutafélaga. Ekki náðist í Valgeir Arnórsson, framkvæmdastjóra Flugfélags Vestmannaeyja varðandi tilboð hans félags.

Samningurinn er um leigu Mýflugs á flugvélinni til þriggja ára og endurleigu Flugstoða á flugvélinni til flugprófana og annarra verkefna. Þegar flugvélin er ekki í verkefnum á vegum Flugstoða getur Mýflug nýtt hana til annarra verkefna á sínum vegum, m.a. í sjúkraflug.