Útboð nýs hlutafjár Kaupþings banka er hafið en þann 6.nóvember síðastliðinn tilkynnti bankinn að hlutafé bankans yrði aukið um allt að 10%. Útboð hlutanna sem verða allt að 66,5 miljónir talsins er ætlað alþjóðlegum stofnfjárfestum.


Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar verður verðlagning hlutanna sem boðnir verða í útboðinu ákveðin með hliðsjón af undirtektum í áskriftarsöfnun en gert er ráð fyrir að verðlagningin fari fram þann 21. nóvember 2006 eða um það leyti. Jafnframt mun verðlagning hlutanna taka mið af lokaverði hluta í Kaupþingi banka í Kauphöll Íslands og Kauphöllinni í Stokkhólmi sama dag.


Umsjónaraðilar útboðsins munu fá umframsölurétt  frá Kaupþingi banka til kaupa á nýútgefnum hlutum í bankanum til viðbótar við þá hluti sem að ofan greinir og samsvara allt að 15% af þeim hlutum, á útboðsverðinu til að svara umframsölu. Þessi umframsöluréttur er nýtanlegur í 30 daga eftir að viðskipti með hina nýju hluti hefjast í Kauphöll Íslands eða í Kauphöllinni í Stokkhólmi, eftir því sem við á. Umsjónaraðilar útboðsins og áskriftarsöfnunar eru Citigroup Global Markets Limited og Morgan Stanley & Co International Limited. Þriðji umsjónaraðili í útboðinu verður Fox-Pitt, Kelton N.V. Kaupþing banki mun jafnframt aðstoða við sölu hlutanna.

Í tilkynningu Kaupþings segir að ástæða útboðsins sé sú að rekstur Kaupþings hefur vaxið verulega á undanförnum árum og þá einkum utan Íslands. Hinsvegar séu hluthafar bankans að langmestu leyti íslenskir. Stjórnendur bankans eru þeirrar skoðunar að breiðari grunnur alþjóðlegra fjárfesta, til viðbótar við hinn stöðuga hóp íslenskra hluthafa, muni styðja við vöxt og viðgang bankans auk þess sem það muni auka enn frekar seljanleika hluta í bankanum. Hlutafjárútboðið mun jafnframt styrkja eiginfjárgrunn bankans og styðja við núverandi stefnu um hagkvæmustu nýtingu fjármagns.

Söluverð hlutafjárins, að frádregnum kostnaði við útboðið, verður nýtt í almennan rekstur bankans, til að styrkja eiginfjárgrunn bankans og til að styðja við frekari vöxt í starfsemi bankans.