Næsta föstudag mun fara fram útboð í þremur flokkum ríkisbréfa með tilboðsfyrirkomulagi hjá Seðlabanka Íslands.

Í fyrsta lagi er í boði RIKB 11 0622, sem er með lokagjalddaga þann 22. júlí 2011. Það er nýr flokkur og er með lánstímann 1,9 ár.

Annar flokkurinn sem boðinn er, er RIKB 13 0517, með lokagjalddaga 17. maí 2013. Þar eru útistandandi 66,6 milljarðar króna og er lánstíminn 3,8 ár. Nafnvextir á bréfunum eru 7,25% og eru þeir greiddir árlega. Fram kemur í Hagsjá Landsbankans að verð í síðustu viðskiptum dagsins var 97,12 sem jafngildir ávöxtunarkröfu upp á 8,16%.

Þriðji og síðasti flokkurinn sem útboðið fer fram í er lengsta ríkisbréfið, RIKB 25 0612. Útistandandi í þeim flokki eru 10,1, milljarður króna og er lánstíminn 15,8 ár. Nafnvextir bréfanna eru 8% og eru þeir greiddir árlega. Ávöxtunarkrafa flokksins í lok dags var 8,65% og var verðið á því 94,50.

Í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun kom fram að sömu flokkar ríkisbréfa stóðu fjárfestum til boða í útboði sem fram fór þann 17. júlí síðastliðinn. Þátttaka fjárfesta reyndist óvenju lítil í því útboði sem rakið var til mikillar sölu ríkisvíxla nokkrum dögum áður og sumarleyfa.

Alls bárust þó tilboð fyrir 7 milljarða króna en öllum var hafnað þar sem kjörin voru talin óviðunandi. Ávöxtunarkrafan á markaði þann dag var um 8,8% á RIKB 13 og 8,9% á RIKB 25 og segir Greining Íslandsbanka að ætla megi að tilboðin hafi verið á svipuðum slóðum sem bárust í þessa flokka í útboðinu.

Krafan á markaði er í dag nokkuð lægri eða um 8,1% á RIKB 13 og 8,6% á RIKB 25.

„Athyglisvert verður því að sjá hvort lækkun markaðskröfu á ríkisbréfin dugi til svo viðunandi þyki eða hvort leikurinn endurtaki sig og tilboðum verði hafnað,“ segir í Morgunkorni.