Að óbreyttu mun skráning Íslandsbanka á markað geta farið fram á fyrir lok annars ársfjórðungs, það er í næsta mánuði. Tímasetning þess er þó meðal annars háð markaðsaðstæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum og Bankasýslu ríkisins.

Í tilkynningunni staðfesta aðilar áform sín um að fyrirhugað hlutafjárútboð og skráning muni fara fram. Umrætt útboð mun verða tvískipt, annars vegar opið útboð fyrir almenning og fagfjárfesta hér heima auk lokuðu útboði fyrir valda erlenda fjárfesta. Að lágmarki fjórðungur af hlutafé bankans verður boðinn út.

„Skráning Íslandsbanka á markað er mikilvægt skref í þá átt að draga úr umtalsverðu eignarhaldi íslenska ríkisins á fjármálamarkaði og mun veita ríkinu skýrt fordæmi í þá átt að selja það sem eftir stendur af eignarhlut í bankanum. Með þessum áfanga færumst við nær heilbrigðara umhverfi á fjármálamarkaði, eins og sjá má hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Það er ánægjulegt að sjá að sölumeðferðin, sem stýrt er af Bankasýslu ríkisins og ráðgjöfum hennar, gengur vel og hlakka ég til að ljúka henni með góðum árangri,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að bankinn stefni að því að arðsemi eigin fjár verði á bilinu 8-10% til ársins 2023 en eftir það sé stefnt að því að vera yfir 10%. Þá muni kostnaðarhlutfall hans lækka niður í 45% fyrir árið 2023.

„Markmið bankans er að um 50% af hagnaði hvers árs verði greiddur út í formi hefðbundinna arðgreiðslna og jafnframt er möguleiki á því að nýta umfram eigið fé til frekari arðgreiðslna, kaupa á eigin bréfum eða til vaxtar sem mun styðja við aukna arðsemi eiginfjár,“ segir þar enn fremur.