Kærunefnd útboðsmála hefur stöðvað útboð Borgarbyggðar á vátryggingum um stundarsakir. Ástæðan er sú að skilmálar í útboðinu þóttu ekki í samræmi við reglur um jafnræði og afar takmarkandi. Ákvörðun nefndarinnar var tekin í lok nóvember en birt í upphafi þessa árs.

Borgarbyggð auglýsti útboð á vátryggingum sveitarfélagsins í október en um útboð á EES-svæðinu var að ræða. Samkvæmt útboðsskilmálum þurftu þátttakendur að starfrækja starfstöð á Íslandi með minnst tíu starfsmönnum. Þá þurftu þeir einnig að starfrækja starfstöð í Borgarbyggð með starfsmanni að minnsta kosti sextán tíma í viku. Starfstöð í sveitarfélaginu þurfti að vera komin á minnst sex mánuðum eftir að samningur um verkið væri undirritaður.

Háværar umræður spruttu upp í sveitarfélaginu árið 2018 þegar VÍS lokaði útibúi sínu í Borgarnesi. Þá tilkynnti TM undir lok síðasta árs að það hygðist loka tryggingaumboði sínu í bæjarfélaginu frá áramótum. Er Sjóvá nú eina tryggingafélagið sem starfrækir útibú í Borgarnesi. Töldu einhverjir sveitarstjórnarmenn það ekki verjandi að vera með samning um tryggingar við tryggingafélag sem ekki starfrækti starfstöð í stærsta þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.

VÍS vildi ekki ekki una þessum skilmálum í útboðinu og kærði það til nefndarinnar. Taldi félagið að um mismunun á fyrirtækjum væri að ræða sem væri í andstöðu við lög um opinber innkaup. Kærunefndin féllst á þessi rök. Ekki væru málefnalegar ástæður að baki téðri mismunun að teknu tilliti til andlags innkaupanna. VÍS hafði því leitt verulegar líkur að því að Borgarbyggð hefði brotið gegn lögum um opinber innkaup með útboðsskilmálunum og útboðið því stöðvað um stundarsakir.