Útboð vegna farmiðakaupa Stjórnarráðsins verður auglýst í febrúar næstkomandi, að því er segir í tilkynningu Fjármálaráðuneytisins.

Að sögn ráðuneytisins hefur undirbúningur útboðsins gengið á undanfarin misseri. Útboðið hefur þá verið undirbúið í samstarfi við önnur ráðuneyti, rekstrarfélag stjórnarráðsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaup.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur Félag atvinnurekenda spurt ráðuneytið í tvígang um það hvenær eigi að bjóða út flugfarmiðana, með litlum árangri.

Í tilkynningunni segir að greining á ferðatilhögun starfsmanna Stjórnarráðsins hafi verið unnin til mats á því hvaða þörfum farmiðakaupin eiga að uppfylla. Til að mynda eru áfangastaðir, framhaldsflug og lengd ferða breytur sem teknar voru með í reikninginn.

Ráðuneytið áætlar að eftir útboðið í febrúar hefjist vinna verkefnisstjórnar um nýjar áherslur í opinberum innkaupum að sambærilegri útfærslu fyrir aðrar stofnanir ríkisins.