Ómar Svavarsson varð forstjóri Vodafone í nóvember 2009. Þá hafði fyrirtækið, sem áður tilheyrði Teymissamstæðunni, gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu þar sem kröfuhafar breyttu hluta skulda sinna í hlutafé. Í dag er Vodafone að langstærstu leyti í eigu Framtakssjóðs Íslands og skilaði 274 milljóna króna hagnaði í fyrra.

Þrátt fyrir að staða Vodafone hafi styrkst á undanförnum mánuðum segir Ómar ýmis sóknarfæri vera á þeim markaði sem fyrirtækið starfar. „Á einstaklingsmarkaði hefur það breytt miklu fyrir okkur að hafa sigrað í útboði um afnot af Nató-þræðinum svokallaða. Með honum getum við boðið fulla þjónustu á fleiri stöðum en áður, til dæmis Húsavík, Grindavík, Sandgerði, Ísafirði og Egilsstöðum. Fólk á þessum stöðum tekur okkur gríðarlega vel og við erum að ná góðum árangri þarna. Ég tel okkur auk þess eiga mikið inni á þessum stöðum.“

Ríkið gæti sparað sér mikið fé

„Á fyrirtækjamarkaði hef ég horft á tvo geira þar sem við höfum ekki verið mjög sterk; annars vegar sjávarútveg og hins vegar hið opinbera. Ýmsar stofnanir hafa fært viðskipti sín til okkar, en ég sakna þess að sjálf ráðuneytin skuli ekki reyna að hagræða í sínum fjarskiptamálum og bjóða þau út. Á sama tíma eru þau dugleg við að berja á sínum undirstofnunum um að hagræða. Við höfum reynt að höfða til ráðuneytanna en því miður hefur áhuginn þar verið lítill sem enginn, þótt við teljum að þau gætu sparað tugi, ef ekki hundruð milljóna með útboði.

Í dag er ekki mikið mál að skipta um fjarskiptafyrirtæki og reynsla þeirra sem hafa flutt sig hingað er góð. Nýlega færði Landsvirkjun sig til okkar og það gekk mjög vel, enda held ég að fjarskiptafyrirtækin séu komin yfir það að bregða fæti fyrir hvert annað við innleiðingu nýrra viðskiptavina. Ég veit ekki hvort þessi afstaða ráðuneytanna sé vegna tímaleysis eða einfaldlega áhugaleysis, en þau gætu hagrætt mikið.“

Ítarlegt viðtal er við Ómar Svavarsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.