Nýr Landspítali ohf hefur auglýst útboð, í samstarfi við Ríkiskaup og Framkvæmdasýslu ríkisins, vegna framkvæmda við Hringbrautarverkefnið. Um er að ræða framkvæmdir vegna jarðvinnu fyrir meðferðarkjarnann, götur, göngustíga, bílastæði og annan lóðafrágang, ásamt fyrirhuguðum bílakjallara.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá eru uppi deildar meiningar meðal stjórnmálaflokka og almennings um hvort rétt sé að byggja upp aðalstarfstöð Landspítalans við Hringbraut. Hafa sumir flokkar lofað í aðdraganda komandi borgarstjórnarkosninga að nýta skipulagsvald sitt í borginni til að breyta staðsetningunni ef fá til þess umboð.

Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins. Aðrar byggingar eru nýtt sjúkrahótel, sem þegar er risið og verður tekið í notkun innan skamms, rannsóknahús og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH segir að um stóran áfanga í Hringbrautarverkefninu sé að ræða. „Nýr meðferðarkjarni mun gerbreyta allri aðstöðu fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur,“ segir Gunnar.

„Samkvæmt okkar áætlunum mun bygging spítalans verða lokið 2024 í samræmi við framlagða fjármálaáætlun 2019-2023. Fullnaðarhönnun, stendur nú yfir og hefur verið notuð aðferðarfræði notendastuddrar hönnunar sem leiðir það af sér að hagsmunaaðilar taka virkan þátt í hönnunarferlinu. Hönnun hússins er í höndum Corpus-hópsins, en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.“