Almennt útboð með hluti í HB Granda fer fram dagana 7. - 10. apríl næstkomandi. Arion banki hf., Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. hyggjast selja þegar útgefna hluti í HB Granda í almennu útboði sem fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hf. hefur umsjón með.

Stærð útboðsins nemur 27% af útgefnum hlutum, nánar tiltekið 492.001.560 hlutum. Arion banki hf. áskilur sér rétt til að stækka útboðið í allt að 583.112.960 hluti eða sem samsvarar 32% af áður útgefnu hlutafé. Á vefsíðu umsjónaraðila útboðsins, www.arionbanki.is , verður tekið við áskriftum frá og með mánudeginum 7. apríl 2014 klukkan 16.00 til og með fimmtudeginum 10. apríl 2014 klukkan 16.00. Lágmarksáskrift er að andvirði 100 þúsund krónur.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að fjárfestum verði boðið upp á tvær áskriftarleiðir, eða svokallaðar tilboðsbækur. Ákvörðun á verði þeirra hluta sem seldir verða í útboðinu verður ekki með sama hætti í báðum tilboðsbókum útboðsins. Í tilboðsbók A óska seljendur eftir áskriftum á verðbilinu 26,6-32,5 krónur á hlut. Eftir lok áskriftartímabilsins munu seljendur ákvarða eitt endanlegt útboðsgengi til allra kaupenda sem þátt tóku í tilboðsbók A, en það mun verða á framangreindu verðbili. Í tilboðsbók B er tekið við áskriftum sem eru að lágmarki á verðinu 26,6 krónur á hlut, en öllum hlutum sem seldir verða í tilboðsbók B verður úthlutað á sama verði, sem verður jafnt eða hærra en endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A.

Gert ráð fyrir að bjóða samtals 8,50% af útgefnum hlutum í tilboðsbók A og 18,50% í tilboðsbók B. Hyggst Arion banki hf. selja 20% í útboðinu (6,30% í tilboðsbók A og 13,70% í tilboðsbók B), en áskilur sér rétt til að auka það í 25%. Hyggst Vogun hf. selja 4,3% (1,35% í tilboðsbók A og 2,95% í tilboðsbók B). Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. hyggst selja 2,7% (0,85% í tilboðsbók A og 1,85% í tilboðsbók B).

Í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar segir að markmið seljenda með útboðinu sé annars vegar að það geri HB Granda kleift að uppfylla skilyrði NASDAQ OMX Iceland hf. um dreifingu hlutabréfa sem tekin eru til viðskipta á Aðalmarkaði kauphallarinnar og hins vegar horfa seljendur til þess að selja eign sína á sem hagstæðustu verði.