Dæmi eru um að íslensk fyrirtæki hafi haft samband við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og kvartað undan viðskiptaháttum íslenskra dótturfyrirtækja erlendra félaga. Þá hefur Samkeppniseftirlitið einnig fengið ábendingar vegna viðskipta sem tengjast útboðum Seðlabankans. Íslensku félögin eru ósátt við að erlend móðurfélög geti komið fjármunum hingað til lands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og í kjölfarið undirboðið þau hér á landi.

Fjárfesta í skuldabréfum dótturfélaga
Þegar erlendir eigendur koma með fjármuni hingað til lands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans er það oft gert með þeim hætti að íslenska dótturfélagið gefur út skuldabréf sem erlenda móðurfélagið fjárfestir í. Síðan notar dótturfélagið féð sem fæst með þessum hætti í reksturinn hér á landi. Íslenskir samkeppnisaðilar telja sig hlunnfarna þar sem félög með erlenda eigendur fá að koma hingað til lands með fjármuni sem fást á betra gengi en almennt gengur og gerist. Í gegnum leið Seðlabankans hafa erlendir aðilar geta fengið um 20% fleiri krónur fyrir þann gjaldeyri sem þeir koma með til landsins en ef þeir myndu koma inn með gjaldeyrinn á almennu gengi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .