*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 13. mars 2015 16:54

Útboð um kaup á flugfarmiðum í fyrsta sinn frá 2011

Ríkið vinnur nú að undirbúningi að útboði um kaup á flugfarmiðum. Hagsmunir starfsmanna eiga ekki að ráða vali á flugfélagi.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Unnið er að undirbúningi að nýju útboði vegna kaupa ríkisins á flugfarmiðum, en slíkt útboð fór síðast fram árið 2011. Í frétt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins kemur fram að þess sé vænst að útboðið fari fram á fyrri hluta þessa árs. Nú er í gildi samningur við Icelandar auk þess sem einstök ráðuneyti hafa gert samninga við Wow air.

Flugfélagið Iceland Express kærði útboðið, sem fram fór árið 2011, til kærunefndar útboðsmála og beindi kvörtun vegna þess til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að gallar hefðu verið á framkvæmd útboðsins. Iceland Express hélt því fram gagnvart ESA að í viðskiptum ríkisins við Icelandair væri falin ólögmæt ríkisaðstoð. Kvörtunin var til meðferðar hjá ESA í tæp tvö ár. Í niðurstöðu ESA frá því í júlí 2014 segir stofnunin að engin ríkisaðstoð sé falin í viðskiptum ríkisins við Icelandair, að því er segir í frétt ráðuneytisins.

Þar segir að vegna þess að athugun ESA hafi m.a. lotið að útboðsferlinu hafi ekki þótt rétt að hefja útboðsferli að nýju meðan kvörtun Iceland Express var þar til meðferðar.

Í því útboði sem nú er unnið að vegna innkaupa á flugsætum fyrir starfsmenn ríkisins til og frá landinu, er eins og áður haft að leiðarljósi að einkahagsmunir þess starfsmanns sem ferðast hverju sinni ráði ekki vali á flugfélagi.