Nú styttist í að framkvæmir hefjist við nýja vatnsveitu fyrir Reykholt og Kleppjárnsreyki í Borgarfirði. Framkvæmdir verða boðnar út nú um helgina, að því er kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Eftir ítarlega leit að fullnægjandi vatnsbóli fyrir Reykholt og Kleppjárnsreyki, hefur verið ákveðið að virkja vatnsból við mynni Rauðsgils og leggja 4,4 kílómetra langa aðveitulögn milli Rauðsgils og Reykholts. Þá verður byggð dælu- og stjórnstöð í grennd við vatnstökustaðinn.

Öll leyfi vegna framkvæmdarinnar liggja fyrir og verkútboð vegna lagnar aðveitulagnarinnar verður auglýst nú um helgina. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í byrjun september og verði lokið um næstu áramót.