SoftBank, stærsti hluthafinn i fasteignafélaginu WeWork, hvetur stjórnendur félagsins að setja áform um hlutabréfaútboð (e. IPO) á ís. Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir útboði WeWork en svo virðist sem tvær grímur hafi runnið á SoftBank samhliða því sem áhugi fjárfesta hefur dvínað. Þetta hefur Financial Times eftir heimildarmönnum sem að sögn blaðsins standa umræðunni nærri.

WeWork hefur vakið mikla athygli fjölmiðla og fjárfesta, en félagið er leiðandi á sviði samhýstarar skrifstofustarfsemi og leigir út skrifstofuhúsnæði um heim allan. Viðskiptahugmyndin er vissulega áhugaverð en hins vegar hefur tap verið viðloðandi reksturinn frá upphafi. Samtals nemur tap WeWork fjórum milljörðum dollara frá árinu 2016.

WeWork er hluti af fyrirtækjasamsteypunni We Company sem hefur stefnt að því að sækja þrjá til fjóra milljarða dollara í hlutabréfaútboðinu. We Company hefur hins vegar sætt vaxandi gagnrýni frá greinendum og fjárfestum fyrir slaka framkvæmdastjórn, gríðarlega háar greiðslur til stofnandans Adam Neumann og flókið skipulag fyrirtækisins.

SoftBank og fjárfestingafélagið Vision Fund hafa lagt meira en 10 milljarða dollara til WeWork. En áhugi SoftBank á útboðinu hefur minnkað hratt eftir að greinendur á Wall Street tóku að færa útreikninga sína á verðmæti félagsins niður. Samkvæmt heimildum Financial Times er fyrirtækið í dag metið á 15 -20 milljarðar dollara en þegar SoftBank fjárfesti fyrir tvo milljarða í félagið í byrjun ársins var verðmiði félagsins 47 milljarðar dollara.

Þverrandi áhugi á hlutabréfaútboðinu hefur haft áhrif á aðra fjármögnun fyrirtækisins. Lánalínur frá JPMorgan og Goldman upp 6 milljarða dollara eru til að mynda háð því að útboðið fari fram á þessu ári. Samtals áætlar Financial Times að fjármögnunarþörf WeWork hljóði upp á 9 milljarða dollara og vandséð hvernig félagið ætli úr þess að loka því gati í bráð. Því séu líkur á að hægja muni verulega á vexti félagsins sem hefur hingað til verið ótrúlega hraður. WeWork var stofnað árið 2010 en í dag býður félagið upp á skrifstofurými í 110 borgum um heim allan.