*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 15. júní 2021 12:00

Útboði Íslandsbanka lokið

Búist er við að margföld umframeftirspurn hafi verið í útboði Íslandsbanka. Von er á niðurstöðum síðar í dag og á morgun.

Ritstjórn
Bankasýsla ríkisins heldur utan um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Búist er við að margföld umframeftirspurn hafi verið í hlutafjárútboði Íslandsbanka sem lauk nú klukkan 12 en það hófst mánudaginn 7. júní. 

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins áttu í síðustu viku von á því að fjöldi áskrifenda gæti hlaupið á tugum þúsund, og yrði sá mesti frá hruni þar sem fjárhæð áskrifta gæti numið hundruð milljörðum króna. Fyrir útboðið var gefið út að leitast verði eftir því að skerða ekki áskriftir undir einni miljón króna. Miðað við áhugann má vera ljóst að margir þeirra sem buðu, sér í lagi hærri fjárhæðir, fái ekki nema lítinn hluta af því sem boðið var og jafnvel ekkert, eftir því hvernig áskriftum verður úthlutað.  

Tilkynna á niðurstöður útboðsins síðar í dag og niðurstöðu úthlutunar á morgun. Gert er ráð fyrir að Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hringi Kauphallarbjöllunni eftir viku, þriðjudaginn 22. júní, og þar með hefjist viðskipti með bréf bankans á markaði. 

Við upphaf útboðsins fyrir ríflega viku var greint frá því Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors og RWC Asset Management LLP hafa skuldbundið sig til að kaupa 10% hlut í bankanum.

Að kvöldi fyrsta dags útboðsins var svo greint frá því að tilboð hefðu borist í alla þá hlut sem til sölu voru, yfir 50 milljarðar króna. Þá var greint frá því í gær að leiðbeinandi verð útboðsins væri nú 79 krónur á hlut en var upphaflega 71 til 79 krónur á hlut. Líkur væru á að lægri boð fengjust ekki samþykkt.

Miðað við það er Íslandsbanki metinn á 158 milljarða króna. Til stendur að selja 25 til 35% hlut í bankanum og verður söluandvirðið um 55 milljarðar króna verði 35% hlutur seldur. Bankinn var að fullu í eigu ríkisins fyrir útboðið og ríkið verður því áfram meirihlutaeigandi bankans eftir skráninguna.

Stikkorð: Íslandsbanki útboð