Alls bárust Icelandair tilboð upp á 37,3 milljarða króna í hluti í Icelandair sem samþykkti boð upp á 30,3 milljarða króna. Umframeftirspurn í útboðinu var því upp á 85% frá bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Ákveðið var að stækka útboðið úr 20 milljörðum króna í 23 milljarða króna.

Útboðsgegnið var 1 króna á hlut auk þess að því fylgja 25% áskriftarréttindi á sama gengi að viðbættum 15% vöxtum næstu þrjú árin upp á 5,7 milljarða króna.. Alls bárust yfir 9 þúsund áskriftir og verða hluthafar félagsins um 11 þúsund eftir útboðið. Þá virkjaðist sölutrygging Íslandsbanka og Landsbankans ekki, en hún miðaðist við allt að 6 milljarða króna að því gefnu að það tækist að ná í 14 milljarða króna í útboðinu.

1000 starfsmenn skráðu sig

Núverandi hluthafar sem tóku þátt í útboðinu fengu fulla úthlutun í samræmi við hlutafjáreign þeirra. Þá bárust áskriftir frá um 1.000 starfsmönnum Iclendair og verður þeim úthlutað án skerðingar. Áskriftir upp að 1 milljón króna verða heldur ekki skertar. Hlutfallsleg skerðing annarra áskrifta í báðum tilboðsbókum nemur um 37%.

Samvkæmt tilkynningu frá Icelandair var mikil eftirspurn frá almennum fjárfestum og verður eignarhlutur þeirra í félaginu um 50% í kjölfar útboðsins.

Hlutafé félagsins var 5,4 milljarðar hluta fyrir útboðið en verður um 28,4 milljarðar hluta og því þynnist eignarhlutur fyrri hluthafa sem ekki tóku þátt í útboðinu verulega.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Við erum auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem Icelandair Group var sýnt í hlutafjárútboðinu sem er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Með breiðari hluthafahópi, sterkum efnahagsreikningi og sveigjanlegu leiðakerfi munum við verða tilbúin að bregðast hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný. Við ætlum okkur, hér eftir sem hingað til, að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf og lífsgæði hér á landi.

Starfsfólk af öllum sviðum Icelandair Group hefur á liðnum mánuðum unnið þrekvirki við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, þjónustu við viðskiptavini í heimsfaraldri og um leið sótt ný verkefni, til dæmis í leigu- og fraktflugi, til að nýta innviði og auka tekjur félagsins. Styrkleikar félagsins liggja meðal annars í reynslu og þekkingu starfsfólks og ekki síst samheldni þegar á móti blæs. Fyrir það er ég bæði þakklátur og stoltur. Nýr kafli er að hefjast í yfir 80 ára sögu félagsins og ég býð yfir sjö þúsund nýja hluthafa velkomna til liðs við okkur