Niðurstaða almenns útboðs í 18-21% eignarhlut Arion banka í Símanum, sem lauk í gær, er sú að bankinn selur 21% hlutafjár í Símanum. Umframeftirspurn var í útboðinu og er vegið meðalgengi í viðskiptunum 3,33 krónur á hlut. Tæplega 5.000 fjárfestar tóku þátt í útboðinu og var niðurstaðan að selja til um 4.600 þeirra. Bankinn fékk 6,7 milljarða króna í útboðinu og er markaðsvirði alls hlutafjár í Símanum um 32 milljarðar króna samkvæmt þeirri niðurstöðu.

Bankinn selur 5% hlutafjár á genginu 3,1 krónur á hlut í tilboðsbók A og 16% hlutafjár á genginu 3,4 krónur í tilboðsbók B. Sá munur var á tilboðsbókunum að hæsta mögulega gengi í tilboðsbók A var 3,1 króna, en ekkert slíkt hámark var í tilboðsbók B.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að ánægjulegt sé fyrir bankann að sjá þessa góðu niðurstöðu í útboðinu. Mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í Símanum sem og fjöldi fjárfesta sem tók þátt í útboðinu beri vott um traust og væntingar til félagsins. Arion banki deili því trausti með nýjum hluthöfum í Símanum en bankinn á nú tæplega 7% hlut í félaginu.

Í tilkynningunni er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að skráning félagsins á Aðalmarkað Kauphallarinnar sé mikilvægt skref fyrir félagið, starfsfólk og hluthafa, en ekki síður viðskiptavini sem eigi sinn þátt í því hvernig fyrirtækið þróist á hörðum samkeppnismarkaði.