Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og formaður framkvæmda og eignaráðs, lýsti einstökum framkvæmdum Reykjavíkurborgar á yfirstandandi ári á Útboðsþingi verklegra framkvæmda sem haldið var á Grand Hotel í gær. Gerði hann þann fyrirvara á að lánsfjármagn fengist og brýndi lífeyrissjóði til að koma þar að málum.

„Við höfum farið inn í þetta ár með þeim fyrirvara sem við höfum ekki þurft að gera áður, eða þeim að við fáum lánsfjármagn til framkvæmdanna. Það er hlutur sem Reykjavíkurborg hefur aldrei þurft að gera áður, en vegna sérstakra aðstæðna þá gerum við það.

Við höfum farið í gegnum eitt skuldafjárútboð þar sem vaxtakjörin frá lífeyrissjóðunum voru að okkar mati óaðgengileg. Við erum enn að vinna í þessum lánamálum og það má eiginlega segja að góðu fréttirnar séu þær að lífeyrissjóðirnir eru eitthvað að sjá að sér og telja það í sínum verkahring að koma með einhverjum hætti að verkefnunum. Það eru klárlega hagsmunir sjóðanna að sjóðsfélagar þeirra gangi ekki um atvinnulausir við þessar aðstæður. Við lítum svo á hjá Reykjavíkurborg að þetta sé ekki síður samfélagslegt verkefni hjá þeim að ráðast í þessar verklegu framkvæmdir við þessar aðstæður,” sagði Óskar Bergsson.