Verulegur samdráttur í opinberum framkvæmdum frá fyrra ári einkenndi árlegt útboðsþing um verklegar framkvæmdir í mannvirkjagerð og byggingariðnaði sem haldið var á Grand Hótel Reykjavík í dag. Á þinginu var gefið yfirlit yfir öll helstu útboð opinberra aðila á verklegum framkvæmdum og fjölmenntu verktakar á þingið.

Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt frá síðasta ári er eigi að síður stefnt að veglegum verkefni. Varkárni einkenndi þó orð frummælenda frá Reykjavíkurborg , Kópavogsbæ, Framkvæmdasýslu ríkisins Landsvirkjun, Siglingastofnun, Landsneti, Orkuveitu Reykjavíkur, og Vegagerðinni. Flestir höfðu þeir þann fyrirvara á að fjármögnun tækist og að aðstæður við fjármögnun annarra verkefna eins og stóriðju gengu eftir.

Mannvirkjagerð hefur verið mikilvæg uppspretta atvinnu- og verðmætasköpunar fyrir íslensku þjóðina. Samkvæmt upplýsingum Samtaka iðnaðarins er mannvirkjagerð sá þáttur iðnaðar sem óx hvað mest undanfarin ár og til hennar mátti  rekja ríflega 10% verðmætasköpunar í landinu. Þegar mest var störfuðu 16 þúsund manns í  greininni.