Riðusmit hefur verið staðfest í aðeins 6% sýna frá Bergstöðum sem tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur skoðað. Tilraunastöðin hefur greint um þriðjung sýna frá Bergstöðum og helming sýna frá Syðri-Urriðaá.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að þær niðurstöður sem komnar eru vekja vonir um að útbreiðsla riðuveiki í Miðjarðarhólfi sé ekki mikil og segir MAST því brýnt að hefta hana með frumlausum viðbrögðum.

„Niðurstöðurnar sýna fyrst og fremst að á Syðri-Urriðaá hafi fáar kindur, ef einhverjar, verið langt komnar á meðgöngutíma sjúkdómsins. Þróun sjúkdómsins hafi því verið skemmra á veg komin en á Bergsstöðum og mögulega hafi smitefnið ekki verið búið að magnast upp með sama hætti.“

Riðuveiki veldur sársaukafullum taugaskaða í miðtaugakerfi sauðfjár og er meðgöngutími sjúkdómsins oftast eitt og hálft til tvö ár. Mest allan þann tíma leynist smitefnið í eitlum meltingarfæranna. Það er ekki fyrr en stuttu áður en einkenni sjúkdómsins koma fram að mögulegt er að greina smitefnið í miðtaugakerfinu með sýnatöku úr mænukylfu og litla heila.

Matvælastofnun hvetur þá bændur sem keyptu fé frá Syðri-Urriðaá og enn hafa ekki samþykkt að afhenda stofnuninni þær kindur, að gera það sem fyrst.