Seðlabanki Íslands segir að horfur fyrir vöruútflutning séu nær óbreyttar fyrir þetta og næstu tvö ár þar sem útlit sé fyrir svipaðan vöxt útflutnings sjávarafurða og álafurða, og er þá tekið tillit til mögulegra áhrifa innflutningsbanns sem rússnesk stjórnvöld tilkynntu fyrir skömmu. Þetta kemur fram í Peningamálum , sem komu út í morgun.

Búist er við því að útflutningur muni aukast um tæplega 7% í ár frá fyrra ári. Líkt og þá er búist við að vöxtur útflutnings verði borinn uppi af þjónustuútflutningi. Útlit er fyrir að vöxtur útfluttrar ferðaþjónustu verði meiri en áður var talið þar sem erlendum ferðamönnum til landsins hefur fjölgað áfram umfram væntingar. Á móti er gert ráð fyrir minni vexti í samgönguþjónustu.

Í Peningamálum segir að gert sé ráð fyrir að frystur uppsjávarfiskur sem seldur var til Rússlands á síðasta ári fari í bræðslu en við það lækki útflutningsverðmætið um 8-10 milljarða króna. Á móti komi að framleiðslu- og útgerðarkostnaður mjöls og lýsis sé lægri en vegna frystingar.

„Líklegt er að áhrif viðskiptabannsins verði minni en þau hefðu verið ef viðskiptabannið hefði verið sett á í fyrra vegna erfiðara efnahagsástands í Rússlandi í ár og hefur útflutningur til Rússlands það sem af er ári verið töluvert minni en á síðasta ári,“ segir í Peningamálum.

Þá kemur fram að einnig sé óvíst hvernig til takist við að afla nýrra markaða fyrir frystar afurðir uppsjávarfiska. Horfur séu á hærra raungengi á spátímanum en gert var ráð fyrir í maíspá bankans og því sé áætlað að útflutningur vöru og þjónustu vaxi heldur hægar á næstu tveimur árum en spáð var í maí, eða um 3-3,5% á ári.