Bílaumboðin telja að lítil breyting hafi orðið á bílaútflutningi síðan lög um það voru sett í desember. Að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, markaðsstjóra Heklu, hefur margt í framkvæmd laganna reynst óþjált og þar að auki komu lögin of seint.

,,Vissulega hafa verið fluttir bílar út frá þessum lögum sem tóku gildi í desember. Hins vegar er það svo að lögin eru mest hvetjandi fyrir þá sem eiga og geta selt bíla af árgerðum 2008 og 2007 því eftir því sem bíllinn er eldri lækkar endurgreiðsluhlutfallið. Þegar bíll er orðinn um það bil 5 ára gamall er ekki greitt neitt til baka. Við sem vildum koma þessum lögum á, notuðum sem okkar rök að mikilvægt væri að yngja upp bílaflotann og stuðla að öruggari og umhverfisvænni samsetningu bílaflotans, en það er þveröfugt við það sem síðar varð. Mesti hvatinn er í því að flytja út bíla sem eru nýir eða mjög nýlegir og það er ekki umhverfisvæn og skynsöm leið," sagði Jón Trausti.

Hann sagðist telja að einstaklingar nái því ekki að selja bílanna sína úr landi. ,,Þeir hafa ekki í augnablikinu möguleikann á að kynna sinn bíl fyrir mögulegum kaupendum erlendis og verðið er einfaldlega ekki nógu hagstætt fyrir mögulega erlenda kaupendur, og í mörgum tilvikum eru bílar einstaklinga sem vilja selja þannig skuldsettir í erlendum bílasamningum að ekki hægt að aflétta veðum nema borga lánin upp og það er óhagstætt í dag."

Hekla hefur selt eitthvað af notuðum bílum úr landi - en þó ekki í því magni sem þeir vonuðumst til segir Jón Trausti. ,,Lögin komu að mínu mati of seint fram, ríkisstjórnin og alþingi voru of sein að bregðast við.  Markaðir í Evrópu eru mun lokaðri núna í janúar og febrúar en þeir voru í október og nóvember. Þá var til staðar gluggi sem hefði átt að nýta sér.

Ég held að þessi aðgerð muni því ekki skila því sem lagt var með upp í upphafi. Ég veit þó að töluvert er verið að flytja út af gömlum pallbílum en það er einangrað dæmi sem ekki er hægt að tengja við þessa lagasetningu heldur eingöngu gengi krónunnar og því að töluvert magn slíkra bíla var hér í boði á ágætu verði."

Jón Trausti telur skynsamlegt að farin verði svipuð leið og í Þýskaland og fleiri löndum Evrópu, og stjórnvöld myndu beita sér fyrir því að greiða hærra skilagjald fyrir gamla bíla, t.d. 200.000 krónur á bíl. ,,Slíkt myndi þýða að við gætum fyrir sömu fjármuni losað umtalsvert magn bíla af götunum sem eru bæði óöruggir, eyðslusamir og óumhverfisvænir.

Slík aðgerð myndi koma sér betur fyrir heimilin og auka talsvert gæði bílaflota landsmanna og um leið örva almenna eftirspurn eftir bílum."