Útflutningsráð áætlar að fara til Ho Chi Minh og Hanoi, tveggja helstu viðskiptaborga Víetnam, en ferðaáætlun verður sem mest sniðin að þeim fyrirtækjum sem taka þátt í ferðinni. Megináhersla verður lögð á að afla upplýsinga um land, þjóð og þau markaðsstækifæri sem fyrir hendi eru segir í frétt Útflutningsráðs.

Yfir 84 miljónir manna búa í Víetnam. Hagvöxtur í landinu síðustu 5 ár hefur verið tæplega 8% og er því spáð að hann verði ríflega 8% næstu ár. Ríkisstjórn Víetnam hefur unnið mjög markvisst að því að minnka fátækt í landinu og er nú talið að17% íbúa lifi undir fátæktarmörkum samanborið við 58% árið 1993. Aukin markaðsvæðing og afnám hafta í landbúnaði sem og aukin áhersla á einkageirann almennt eru helstu ástæður þessa góða árangurs.

Viðskipta- og fjárfestingarumhverfi í Víetnam fyrir erlend fyrirtæki og fjárfesta hefur batnað mikið síðustu ár og er gert ráð fyrir að það batni enn frekar eftir að Víetnam gerðist aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) í byrjun þessa árs.

Fyrirtæki á Norðurlöndunum og vestræn fyrirtæki almennt horfa í sívaxandi mæli til Víetnam, sem dæmi má nefna að yfir 70 dönsk fyrirtæki eru í dag með skrifstofur eða dótturfyrirtæki í landinu.

Þann 27. og 28. september verður haldin í Ho Chi Minh borg ráðstefnan Asian Forum on Corporate Social Responsibility, en íslenskum fyrirtækjum stendur til boða að taka þátt í henni.