Útflutningsráð Íslands og Icelandair hafa skrifað undir tveggja ára samstarfsamning vegna viðskiptasendinefnda Útflutningsráðs, segir í fréttatilkynningu.

?Samningurinn er mikilvægt skref í að styðja við íslensku útrásina og gefur Útflutningsráði aukið svigrúm til að aðstoða íslensk fyrirtæki við að ná fótfestu á nýjum markaðssvæðum. Icelandair hefur mikilvægu hlutverki að gegna í útrásinni og við erum mjög ánægð með að hafa gert þennan samning við fyrirtækið, enda okkar umbjóðendum í hag," segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs.

Undir samninginn skrifuðu fyrir hönd Icelandair Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs og fyrir hönd Útflutningsráðs Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri, og Guðjón Svansson, forstöðumaður Nýrra markaða.

Útflutningsráð fer með á þriðja tug fyrirtækja til Úkraínu á sunnudag í viðskiptasendinefnd í tengslum við opinbera heimsókn utanríkisráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur.

Á næsta ári verða skipulagðar átta til níu viðskiptasendnefndir fyrir íslensk fyrirtæki í útrásarhug, segir í tilkynningunni.